Orkuskiptaspá 2025 - 2050

Grunnspá

Orkuspáin er samstarfsverkefni Landsnets, Raforkueftirlitsins og Umhverfis- og orkustofnunar.

Helstu niðurstöður um orkuskipti

Gert er ráð fyrir að innanlandsnotkun jarðefnaeldsneytis muni dragast saman á næstu árum og áratugum og að orkuskipti verða langt komin í lok tímabilsins, sér í lagi ef þróun orkuskipta í háspá raungerist. Orkuskipti þurfa að ganga mun hraðar en grunnspá gerir ráð fyrir til að Ísland nái loftslagsmarkmiðum sínum.  

Meiri óvissa ríkir um þróun orkuskipta í millilandanotkun. Með núverandi tækni er ekki fýsilegt að rafvæða stór skip eða millilandaflug. Með áframhaldandi tækniþróun verður sífellt raunhæfara að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með rafeldsneyti. Skortur á hvötum, kostnaðarhagkvæmni og eftirspurn stýra því hversu hratt er hægt að innleiða slíka tækni og þar af leiðandi að fasa út notkun jarðefnaeldsneytis. 



Vegasamgöngur

Gert er ráð fyrir notkun jarðefnaeldsneytis í vegasamgöngum fari minnkandi hér eftir hvort sem litið sé til grunn- eða háspár þrátt fyrir að orkuskipti í samgöngum á landi ganga hægar en fyrri spár gerðu ráð fyrir. Þróun orkuskipta hjá ökutækjaleigum og þyngri ökutækjum er styttra komin og hefur mikil áhrif á heildarmyndina, en möguleikum í nýorkutækni fjölgar hratt. 



Notkun eldsneytis í vegasamgöngum frá 2010 til 2050

Notkun eldsneytis í vegasamgöngum frá 2010 til 2050 – mynd

Fiskiskip

Olíunotkun fiskiskipa hefur minnkað þrátt fyrir aukið aflaverðmæti, fyrst og fremst vegna færri og stærri skipa, en aukning árið 2024 skýrist af eldsneytissölu til erlendra skipa. Orkuskipti fiskiskipa eru ekki hafin í grunnspá og engir nýir orkugjafar væntanlegir á næstu árum en háspá gerir ráð fyrir 10% íblöndun lífeldsneytis árið 2030 og hraðari orkuskiptum til lengri tíma.


Notkun eldsneytis í fiskiskipaflota frá 2010 til 2050

Notkun eldsneytis í fiskiskipaflota frá 2010 til 2050 – mynd

Millilandaflug

Orkunotkun í millilandaflugi fer að mestu eftir fjölda erlendra ferðamanna, bæði skiptifarþega og ferðamanna sem heimsækja Ísland. Forsendur byggja á spám Ferðamálastofu og ISAVIA, og háspá gerir ráð fyrir fleiri ferðamönnum. Orkuskipti í millilandaflugi eru áætluð samkvæmt evrópskum viðmiðum, með innleiðingu sjálfbærs þotueldsneytis (e. Sustainable Aviation Fuel) í bæði grunn- og háspá.


Notkun eldsneytis í millilandaflugi frá 2010 til 2050

Notkun eldsneytis í millilandaflugi frá 2010 til 2050 – mynd

Millilandasiglingar

Aukning í sölu eldsneytis til millilandasiglinga má að miklu leyti rekja til komu fleiri skemmtiferðaskipa, en flutningaskip taka aðeins lítið magn eldsneytis á Íslandi. Óvissa er um hvort skemmtiferðaskip muni kaupa rafeldsneyti á Íslandi eða í öðrum höfnum þegar orkuskiptin aukast.


Notkun eldsneytis í millilandasiglingum frá 2010 til 2050

Notkun eldsneytis í millilandasiglingum frá 2010 til 2050 – mynd

Jarðefnaeldsneyti

Gert er ráð fyrir að innanlandsnotkun jarðefnaeldsneytis muni dragast saman á næstu árum og áratugum og að orkuskipti verða langt komin á tímabilinu, sér í lagi ef orkuskiptaþróun í háspá raungerist. Meiri óvissa er um millilandanotkun. Bæði hversu hratt orkuskiptin raungerast og hver eftirspurnin verður, en hún stýrist að miklu leyti af erlendum ferðamönnum. 

Árið 2040, þegar Ísland á að hafa náð kolefnishlutleysi, gerir grunnspá ráð fyrir notkun 290 þús. tonnum olíuígilda innanlands og 415 þús. tonnum olíuígilda í millilandanotkun.


Áætluð notkun jarðefnaeldsneytis fram til 2050

Áætluð notkun jarðefnaeldsneytis fram til 2050 – mynd

Losun gróðurhúsalofttegunda

Jarðefnaeldsneyti er stærsti einstaki losunarþátturinn í samfélagslosun Íslands. Orkuskipti þurfa að ganga mun hraðar en grunnspá gerir ráð fyrir til að Ísland nái loftslagsmarkmiðum sínum. 


Losun gróðurhúsalofttegunda vegna notkunar jarðefnaeldsneytis

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna notkunar jarðefnaeldsneytis – mynd

Breyting í losun gróðurhúsalofttegunda vegna notkunar jarðefnaeldsneytis frá árinu 2010

Breyting í losun gróðurhúsalofttegunda vegna notkunar jarðefnaeldsneytis frá árinu 2010 – mynd

Ísland er í sérstöðu þegar kemur að notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Notkun jarðefnaeldsneytis hefur stýrt hlutfallinu til þessa, en með vaxandi orkuskiptum er gert ráð fyrir að það hækki úr 74% í 94% í lok spátímabilsins. Hlutfallið fór í 82% árið 2020 vegna minni umferðar og flugs í tengslum við COVID-19 faraldurinn.


Almennar forsendur

Almennar forsendur – mynd

Nánari upplýsingar

Finna má nánari upplýsingar um þróun og stöðu orkuskipta í kynningunni, þar með taldar forsendur um samgöngur á landi.


Veldu tengilinn hér fyrir neðan fyrir jarðvarmaspá.