Jarðvarmaspá Íslands 2025 - 2050
Orkuspáin er samstarfsverkefni Landsnets, Raforkueftirlitsins og Umhverfis- og orkustofnunar.
Helstu niðurstöður um jarðvarma
Jarðvarmanotkun alls hefur haldist nánast óbreytt á árunum 2023-25
Af heildarnotkun árið 2024 sem er um 36,5 PJ, voru 16,5 fyrir heimili og 14 fyrir þjónustu. Önnur notkun skiptist milli iðnaðar, fiskeldis og landbúnaðar. Gert er ráð fyrir að notkun alls árið 2025 lækki í 35,1 PJ þar sem árið hefur verið óvenjulega hlýtt. Án fiskeldis er aukning í notkun 2024-30 rúmlega 10% og 20% til 2035, en með fiskeldi er aukningin allt að 20% til 2030 og 40% til 2035 í grunnspá.
Heimilisnotkun eykst með mannfjölda en hærri lofthiti dregur úr húshitun
Helsti áhrifaþáttur jarðvarmanotkunar heimila er rúmmál þess húsnæðis sem hitað er með jarðvarma. Rúmmál íbúðarhúsnæðis breytist í takt við mannfjölda, en um 99% fylgni er á milli rúmmáls húsnæðis og mannfjölda. Jarðvarmanotkun heimila hækkar um rúmlega 1% með 1% aukningu í rúmmáli húsnæðis. Íbúðarhúsnæði á landinu hefur vaxið úr 39 þús. m³ árið 1993 í nærri 74 þús. m³ árið 2024. Gert er ráð fyrir aukningu í 79 þús. m³ árið 2035, og 85 þús. m³ árið 2050.
Hitastig hefur einnig áhrif á húshitunarþörf, og lækkar varmanotkun heimila á bilinu 2% til 4,5% fyrir hverja eina gráðu frá 4,5°Cviðmiði um árshita í Reykjavík. Árshiti í Reykjavík var um 0,5°C hærri á tímabilinu 2015-2024 samanborið við tímabilið 1993-2002. Heimilsnotkun jarðvarma var um 4.600 GWh (eða um 16,6 PJ) árið 2024, og myndi 1°C hækkun lofthita því lækka heimilisnotkun jarðvarma allt að 200 GWh/ári. Áhrifin á alla húshitun (þar með talda hjá fyrirtækjum) af einnar gráðu hækkun hita geta verið allt að 370 GWh/ári.
Heimilisnotkun á hvern íbúa hefur farið hækkandi, úr 10,4 MWh/ári/íbúa árið 1993 í 11,7 árið 2024, en sú aukning skýrist að hluta með aukinni hitaveituvæðingu. Sé litið einungis til höfuðborgarsvæðisins hefur notkunin haldist að mestu óbreytt síðastliðin 30 ár og er nú um 11,3.
Veruleg óvissa um notkun jarðvarma í landeldi
Mesta óvissan í framtíðarhorfum jarðvarmanotkunar er hversu mikið landeldi (fiskeldi) mun nota. Landeldi við Þorlákshöfn hefur til þessa ekki notað jarðvarma en gert er ráð fyrir að það breytist. Einnig er landeldi vaxandi í Vestmannaeyjum og fyrirhugað eldi við Reykjanesvirkjun mun nýta glatvarma frá virkjuninni. Jarðvarmanotkun fiskeldis árið 2024 á landinu öllu var um 4,1 PJ en gert er ráð fyrir að notkunin aukist í 19 PJ árið 2035.
Notkun þjónustu eykst með mannfjölda og ferðafólki
Fjöldi fólks á landinu, íbúa og ferðafólks, er nú áætlaður um 440 þús. dag hvern að jafnaði miðað við 7 daga dvöl, og er notkun þjónustu um 8,7 MWh á höfðatölu þess mælikvarða. Hefur sú stærð haldist að mestu óbreytt síðastliðin 30 ár.
Heildarnotkun jarðvarma frá 2007 til 2050
Almennar forsendur
Nánari upplýsingar
Finna má nánari upplýsingar um þróun og stöðu jarðvarmanotkunar í kynningunni, þar með talda notkun heimila, þjónustu, fiskeldis, sundlauga, snjóbræðslu, iðnaðar og gróðurhúsa.